Lög félagsins

1. gr. Félagið heitir Hjólreiðafélagið Bjartur. Heimili félagsins og varnarþing er í Hafnarfirði.

2. gr. Meginmarkmið félagsins er iðkun hjólreiðaíþrótta, að efla hjólreiðar sem keppnisíþrótt og stuðla að aukinni uppbyggingu í kringum félagsstarfsemi.

3. gr. Félagar geta allir orðið og æski einhver að gerast félagi skal hann senda umsókn til félagsins. Hver sá sem greiðir félagsgjald til félagsins er félagi í Hjólreiðafélaginu Bjarti. Félagar fara með eitt atkvæði á aðalfundi og öðrum fundum félagsins. Einstaklingar yngri en 16 ára hafa ekki atkvæðisrétt.

4. gr. Aðalfundur félagsins hefur æðsta vald í málefnum félagsins. Stjórn félagsins er æðsti aðili í málefnum þess á milli aðalfunda og mótar starfssemina í aðalatriðum. Félagsfundi skal boða svo oft sem stjórn ákveður og ef skrifleg ósk kemur fram frá eigi færri en 10 félagsmönnum og tilgreini þeir fundarefni hans. Halda skal félagsfund eigi síðar en fjórum vikum eftir að krafan um hann barst stjórninni og skal boða félagsfundinn með viku fyrirvara.

5. gr. Aðalfundur félagsins skal haldinn eigi síðar en í mars ár hvert. Til aðalfundar skal boðað með tveggja vikna fyrirvara og skal hann boðaður öllum félagsmönnum skriflega, á póstlista félagsins og á heimasíðu. Aðalfundur félagsins er löglegur sé löglega til hans boðað, án tillits til hversu margir mæta á fundinn.

Dagskrá aðalfundar skal vera sem hér segir:

a) Kosinn fundarstjóri og fundarritari

b) Skýrsla stjórnar um störf félagsins á liðnu starfsári.

c) Endurskoðaðir reikningar lagðir fram til samþykktar.

d) Stjórn leggur fram fjárhagsáætlun næsta árs.

e) Lagabreytingar, ef tillögur liggja fyrir sbr. 10. grein

f) Kosning í 5 manna stjórn félagsins;

- kosinn formaður

- kosnir 4 einstaklingar í stjórn (gjaldkeri, ritari, tveir meðstjórnendur)

g) Kosning tveggja varamanna

h) Kosning tveggja skoðunarmanna reikninga

i) Skýrslur og tillögur fráfarandi nefnda

j) Önnur mál.

Á aðalfundi ræður meirihluti atkvæða úrslitum allra mála, sbr. þó 12. grein. Kosning skal vera skrifleg nema aðeins komi fram ein uppástunga til stjórnarstarfa, þá telst sá sem tilnefndur er, sjálfkjörinn.

6. gr. Reikningsár félagsins er almanaksárið. Allir reikningar skulu vera komnir til endurskoðenda félagsins eigi síðar en 7 dögum fyrir aðalfund.

7. gr. Stjórnin skal halda félagaskrá og endurskoða hana á hverju starfsári.

8. gr. Komi til þess að stjórn segir af sér störfum skal boða til félagsfundar og nýir fulltrúar kosnir til sama tíma og fráfarandi fulltrúar voru áður kosnir.

9. gr. Félaginu verður ekki slitið nema á aðalfundi með samþykki að minnsta kosti 2/3 hluta fundarmanna og því aðeins að getið hafi verið um væntanlega atkvæðagreiðslu um framtíð félagsins í skriflegu fundarboði. Við slit á félaginu skulu allar eignir þess renna til Íþróttabandalags Hafnarfjarðar og skal þeim varið til uppbyggingar íþrótta innan ÍBH.

10. gr. Lögum þessum má ekki breyta nema á aðalfundi félagsins, og þarf til þess samþykki 2/3 hluta atkvæðisbærra fundarmanna.Tillögur til lagabreytingar skulu tilkynntar með aðalfundarboði og skulu þær birtar á heimasíðu félagsins eigi síðar en viku fyrir aðalfund.

11. gr. Þannig samþykkt á aðalfundi í 31. mars 2022.